Sjálfsefling og félagsfærni út frá jákvæðri sálfræði
Fullbókað er á námskeiðið.

Lýsing: Í grunnþáttum aðalnámskrár segir: Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Það ræðst af flóknu samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis. Allt skólastarf þarf að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan enda verja börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skóla.

Í menntastefnu Reykjavíkur hverfast tveir af fimm grundvallarþáttum stefnunnar um sjálfseflingu og félagsfærni. Námskeiðið tengist því með beinum hætti áherslum þessara lykilskjala. Við mótun menntastefnu lögðu kennarar og nemendur grunnskóla áherslu á mikilvægi þess að efla sjálfseflingu og félagsfærni enda væri hæfni, þekking og leikni tengd þessum grundvallarþáttum sá grunnur sem annað starf og nám þyrfti að byggja á.

Á námskeiðinu verður fjallað um hvernig vinna megi að sjálfseflingu og félagsfærni í uppeldis og menntastörfum – í samræmi við nýja menntastefnu. Sjónum verður sérstaklega beint að því hvernig unnt er að efla félags- og tilfinningahæfni, seiglu, vaxtarhugarfar og sjálfsþekkingu. Fræðilegur grunnur námskeiðsins er meðal annars sóttur í jákvæða sálfræði sem fjallar um hvernig stuðla megi að vellíðan og velfarnaði. Lögð er áhersla á hagnýtingu um hvernig nýta megi fræðin við uppeldi ogeða menntun og fræðslu á ýmsum vettvangi.

Námskeiðið byggir á erindum, umræðum og æfingum með áherslu á virka þátttöku. Markmiðið er að kynna fyrir þátttakendum með hvaða hætti hægt er að nota verkfæri jákvæðrar sálfræði til þess að stuðla að sjálfseflingu og félagsfærni.
This form was created inside of Reykjavíkurborg. Report Abuse